Kyndilmessa er 2. febrúar

akureyrarkirkja-gluggi-minni

Við íhugum ljósið í messunni kl. 11 í Grensáskirkju sunnudaginn 2. febrúar. Samkvæmt gömlum sið er þessi dagur kallaður kyndilmessa vegna þess að farnar voru ljósagöngur til að minnast hreinsunar Maríu í musterinu 40 dögum eftir fæðingu Jesú. Guðspjall dagsins er ummyndun Jesú Krists á fjallinu sem líka tengir við ljós og birtu. Svo er þetta bænadagur á vetri en áður fyrr hófst vetrarvertíð daginn eftir kyndilmessu og þá var sérstaklega beðið fyrir sjómönnum. Alls kyns veðurtrú víða um hinn vestræna heim er tengd kyndilmessu og talið að hún eigi sér keltneskar rætur. Við könnumst við vísuna: Ef að sól í heiði sést / á sjálfa kyndilmessu / snjóa vænta máttu mest / maður upp frá þessu. En hvað sem því líður messum við í Grensáskirkju. Ásta Haraldsdóttir er organisti og Kirkjukór Grensáskirkju leiðir söng. Prestur er María Guðrúnar Ágústsdóttir og messuhópur 4 ásamt fermingarfjölskyldum þjónar einnig. Samskot eru tekin til líknarsjóðs Grensáskirkju. Heitt á könnunni á undan og eftir messu. Verum velkomin. Myndin er úr Akureyrarkirkju.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Deila pósti

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin