Hugleiðing – Þakkir

sol-tre-minni

Á tímum óvissu og erfiðleika þá er gott og hollt að hugsa um þakklætið. 

Við getum verið þakklát fyrir fólkið í lífinu okkar, fyrir þau sem standa við bakið á okkur og sýna okkur ást og umhyggju. Við getum verið þakklát fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sem að vinnur ómetanlegt starf. Við getum verið þakklát fyrir þríeykið Víði, Þórólf og Ölmu sem að standa vörðinn og gera sitt besta til að passa upp á okkur öll. Við getum verið þakklát fyrir góðar minningar og kærleikstilfinningar.

Ég er með svolítið verkefni fyrir ykkur yfir næstu viku. Ég vil að þið byrjið hvern dag á því að finna eitthvað sem að þið eruð þakklát fyrir. Það má vera hvað sem er. Það má vera manneskja, hlutur, staður, atburður, tilfinning. Hvað sem er. Skrifið það svo niður á blað, brjótið það saman og setjið í vasann ykkar. Gangið með miðann inn í daginn til að minna ykkur á þakklætið. Hugsið um af hverju þið eruð þakklát fyrir þetta, hvað það er sem lætur ykkur líða vel þegar hið hugsið um það. Á kvöldin skuluð þið svo biðja þakkarbæn, þar sem þið þakkið Guði fyrir það sem þið völduð. Gerið þetta í sjö daga, eina viku, og veljið alltaf eitthvað nýtt fyrir hvern dag. Leyfið vikuna að vera þakkarvika. 

Svo þegar vikan er liðin skuluð þið taka alla miðana fram. Sjáið allt sem þið eruð þakklát fyrir. 

Þakklætið er svo merkilegt. Það hjálpar okkur að vera jákvæð og sjá hið góða í lífinu. Það fyllir okkur af sjálfsöryggi að vita hvað við erum þakklát fyrir og eflir samkennd. 

Fyrir hvað erum við þakklát? Ég skal byrja. Ég er þakklátur fyrir það að hafa Guð í lífi mínu, því ég stend aldrei einn.

„Þakkið Drottni því að hann er góður, 

Miskunn hans varir að eilífu.“

-Sálmarnir 136.1

Danni

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Deila pósti

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin